Margt um að vera á laugardag.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Næsta laugardag, 25. október - sem jafnframt er fyrsti vetrardagur verður margt um að vera tengt sauðkindinni.  Fyrst má telja að á Skólavörðustígnum í Reykjavík verður kjötsúpudagurinn haldinn hátíðlegur, tólfta árið í röð.  Verslunareigendur í götunni skipuleggja viðburðinn í samvinnu við sauðfjárbændur, en frá kl. 14 verður hægt að gæða sér á rjúkandi kjötsúpu á fimm stöðum í götunni.  Dagskráin hefst ávallt á því að föngum í Hegningarhúsinu er færð súpa en síðan verða lokin tekin af pottunum fyrir gesti og gangandi.  

Í framhaldinu verður boðið upp á Hrútaþukl í fyrsta sinn í Reykjavík.  Viðburðurinn er skipulagður í samvinnu við KEX hostel við Skúlagötu og fer fram í portinu á bak við staðinn.   Þar má sjá nokkra valinkunna einstaklinga spreyta sig í hrútaþukli og freista þess að dæma hrúta og mæla hæfileika sína til þess samanborið við sérfróða dómara. Viðburðurinn hefst kl. 16.15 í portinu á bak við KEX eins og áður sagði.

24. og 25. október fer jafnfram fram hinn árlegi haustfagnaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu.  Fjölbreytt dagskrá er í boði að venju.  Helstu viðburðir eru ljósmyndasamkeppni, lambhrútasýningar, sviðamessa, rúningskeppni og grillveisla ásamt stórdansleik.

25. október er einnig sviðaveisla í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Hólmavík, en setrið sjálft skipuleggur veisluna.  Margt verður þar til skemmtuna eins og sjá má hér.

Sala í september

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sala á kindakjöti í september sl. var 1.060 tonn, en í sama mánuði 2013 var salan 1.328 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2013 (júlí-september) var salan 11,5% minni en 9,2 % minni m.v. 12 mánaða tímabil (október-september).

12 mánaða markaðshlutdeildin er þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti (32,5%), kindakjöt í 2. sæti (25,7%), svínakjöt í þriðja (24,4%), svo nautakjöt (14,7%) og loks hrossakjöt (2,4%). Heildarsala á innlendu kjöti dróst saman um 6,2% á tímabilinu.

Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við heildsölu afurðastöðva á innlendu kjöti. Innflutt kjöt er ekki talið með. Vegna verulegrar aukningar á innflutningi er orðið erfiðara að draga ályktanir um þróun kjötsölu út frá ofangreindum tölum..  

Útflutningur var 257 tonn í september, samanborið við 295 tonn í sama mánuði 2013. Með útflutningi er heildarafsetning lamba- og kindakjöts 6% minni fyrstu níu mánuði ársins 2014 miðað við sömu mánuði 2013.

Kjötmat til miðs október

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Nú eru liðnar sex af átta vikum sláturtíðar.  Það sem af er þá er meðalþungi lambsskrokka á landsvísu 360 gr. meiri en á sama tíma í fyrra (16,43 kg í stað 16,07 kg)  Það má rekja til góðs sumars víðast hvar á landinu.  Hinsvegar er þyngdaraukningunni nokkuð misskipt því að á meðan aukning meðalþunga er 770 grömm í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík og hjá Fjallalambi á Kópaskeri - þá er á sama tíma óbreyttur meðalþungi í sláturhúsi Norðlenska á Höfn og 40 gramma hækkun hjá SS.

Einkunn fyrir gerð á landsvísu er 8,68 á tímabilinu í heild samanborið við 8,53 á sama tíma í fyrra.  Hún hækkar allsstaðar nema hjá Norðlenska á Höfn (-0,04) en mesta hækkun er hjá Fjallalambi (+0,33)

Fitueinkunn á landsvísu er 6,55 á tímabilinu samanborið við 6,46 á sama tíma í fyrra. Fitueinkunn lækkar talsvert hjá Fjallalambi (-0,40) en hækkar hjá Norðlenska á Höfn (+0,68).

Heildaruppgjör sláturtíðarinnar mun verða birt hér að henni lokinni.  Samfelldri sauðfjárslátrun lýkur víðast hvar í vikunni 27.-31. okt, með þeirri undantekningu að SS slátrar líka 3.-7. nóv.

Lokað fram á mánudag

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Skrifstofa LS er lokuð vegna veikinda í dag fimmtudag og á morgun föstudag.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar