Reglugerð um greiðslumark 2015

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Út er komin reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2015.  Fjöldi ærgilda er sem fyrr óbreyttur eða 368.457. Áætluð fjárhæð beingreiðslu er kr. 6.868 á næsta ári.

Við reglugerðina hefur nú verið bætt verklagsreglum um ráðstöfun fjármuna vegna nokkurra verkefna sem felast í sauðfjársamningnum.  Í viðaukum hennar er semsagt hægt að finna á einum stað reglur um ráðstöfun fjár vegna ullarnýtingar, um ráðstöfun fjár vegna jarðabóta og hreinsunar affallsskurða sem og um fyrirkomulag úttekta á þeim verkefnum.  Þá er einnig að finna í viðaukum reglur um bústofnskaupastyrki til frumbýlinga og reglur um styrki til þróunarverkefna í sauðfjárrækt.

Reglugerðin er númer 1100/2014 og má lesa hana hér.  Athugið að viðaukarnir eru einungis í PDF útgáfunni. 

Enginn dýralæknir á Mið-Austurlandi.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Matvælastofnun hefur á undanförnum mánuðum auglýst í þrígang eftir dýralæknum til að þjónusta Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Fjarðabyggð (að undanskildum Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði), en án árangurs. Þjónustusamningurinn verður áfram laus til umsóknar, en stofnunin telur að breyta þurfi reglum til að finna lausn sem stuðlar að því að tryggja dýralæknaþjónustu á svæðinu til lengri tíma. Tveir dýralæknar á svæðinu eru sjálfstætt starfandi (Hjörtur Magnason og Diana Divileková) -  en þau hafa nú tilkynnt um fjarveru til 4. janúar n.k.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.

Landbótaáætlanir

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Þátttakendur í gæðastýringu með landbótaáætlanir í gildi eru minntir á að áætlanir ber að uppfæra fyrir árslok þannig að þær verði á eftir í samræmi við gildandi gæðastýringarreglugerð (nr. 1160/2013). Sjá bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar.

Áætlunum ber að skila til Landgræðslunnar eða héraðsfulltrúa hennar á viðkomandi svæði.  Ferlið er þannig að Landgræðslan fer yfir áætlunina og gefur umsögn um hana til Matvælastofnunar.  MAST tekur síðan endanlega ákvörðun um hvort hin endurskoðaða áætlun verður tekin gild eða ekki.

Fyrir liggur að hvorki Landgræðslan né MAST munu ljúka yfirferð endurskoðara áætlana fyrir árslok.  Eftir sem áður er mikilvægt að endurskoðaðri áætlun sé annahvort skilað inn fyrir áramót eða farið skriflega fram á lengri skilafrest, vilji menn ekki stofna aðild sinni að  gæðastýringunni í hættu.

Lambadómar 2014

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Vakin er athygli á því að yfirlit um lambadóma 2014 er komið á vef RML.  Niðurstöðurnar voru afar jákvæðar m.a. var sett stigamet í lambhrútadómum þegar hrúturinn Dólgur frá Víðikeri í Bárðardal fékk 90,5 stig.  Það er hæsta stigatala sem gefin hefur verið.  Sjá nánar hér 

Einnig er hægt að skoða yfirlit um þátttöku í lambaskoðunum á vef RML.  Skoðuðu voru nærri 84 þúsund lömb, þar af tæplega 16 þúsund hrútar.  Þátttakan var mest í Strandasýslu þar sem næstum fjórða hvert fætt lamb var skoðað (23,3%) en minnst í N-Múlasýslu (5,7%).  Sjá nánar hér.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar