Bætur vegna línubrjóta

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Atvinnuvegaráðuneytið hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.

Inn í reglugerðina er nú bætt ákvæðum um hvernig greiða skal bætur vegna línubrjóta. Þau ákvæði hafa hingað til ekki verið útfærð í reglugerð og oft verið óljóst hvernig haga ætti þeim málum.  Í reglugerðinni eru ákvæði um greiðslu bóta fyrir ær og hrúta.  Ekki eru greiddar bætur fyrir lömb enda séu þau lögð inn á eiganda. Matvælastofnun annast útgreiðslu bóta og beina ber umsóknum um þær þangað.

Sjá nánar hér.

Eingöngu rafræn skil á forðagæsluskýrslum

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Athygli er vakin á því að Matvælastofnun hyggst ekki senda út forðagæslueyðublöð á pappír nú í haust, heldur er farið fram á að öllum skýrslum verði eingöngu skilað rafrænt í gegnum www.bustofn.is.  Það er heimilt skv. lögum um búfjárhald sem tóku gildi um síðustu áramót.

Skiladagur haustskýrslu er eftir sem áður 20. nóvember.  Sjá nánar hér á vef Matvælastofnunar.

Frá RML

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Vakin er athygli á eftirtöldu á vef Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.  Sauðfjárskóli RML verður í boði á svæðinu frá  Reykjanesi til Vestfjarða á komandi vetri.  Kennslustaðir fara eftir þáttöku, en skráning er til 3. nóvember nk. Góður rómur hefur verið gerður að sauðfjárskólanum þar sem hann hefur verið í boði.

Þá er búið að birta lista yfir nýja hrúta á sæðingarstöðvum á vef RML.  Eftir er að kynna hrútana nánar en hér má sjá nöfn, númer og uppruna þeirra hrúta sem eru að koma nýir á stöðvar í haust.

Þá er í gangi skráning á námskeið í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.  Frestur rennur út 5. nóvember nk. en áætlað er á námskeiðin fari fram dagana 10.-14. nóv.  

 

Margt um að vera á laugardag.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Næsta laugardag, 25. október - sem jafnframt er fyrsti vetrardagur verður margt um að vera tengt sauðkindinni.  Fyrst má telja að á Skólavörðustígnum í Reykjavík verður kjötsúpudagurinn haldinn hátíðlegur, tólfta árið í röð.  Verslunareigendur í götunni skipuleggja viðburðinn í samvinnu við sauðfjárbændur, en frá kl. 14 verður hægt að gæða sér á rjúkandi kjötsúpu á fimm stöðum í götunni.  Dagskráin hefst ávallt á því að föngum í Hegningarhúsinu er færð súpa en síðan verða lokin tekin af pottunum fyrir gesti og gangandi.  

Í framhaldinu verður boðið upp á Hrútaþukl í fyrsta sinn í Reykjavík.  Viðburðurinn er skipulagður í samvinnu við KEX hostel við Skúlagötu og fer fram í portinu á bak við staðinn.   Þar má sjá nokkra valinkunna einstaklinga spreyta sig í hrútaþukli og freista þess að dæma hrúta og mæla hæfileika sína til þess samanborið við sérfróða dómara. Viðburðurinn hefst kl. 16.15 í portinu á bak við KEX eins og áður sagði.

24. og 25. október fer jafnfram fram hinn árlegi haustfagnaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu.  Fjölbreytt dagskrá er í boði að venju.  Helstu viðburðir eru ljósmyndasamkeppni, lambhrútasýningar, sviðamessa, rúningskeppni og grillveisla ásamt stórdansleik.

25. október er einnig sviðaveisla í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Hólmavík, en setrið sjálft skipuleggur veisluna.  Margt verður þar til skemmtuna eins og sjá má hér.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar