Seinkun greiðsluáætlunar sauðfjárbænda

| .

Birting á áætlun um stuðningsgreiðslur til sauðfjárbænda árið 2017 sem liggja átti fyrir þann 15. febrúar hefur tafist. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarstofu MAST verður áætlunin tilbúin í dag og geta bændur nálgast hana á bændatorgi BÍ seinna í dag eða um helgina. Áætlunin verður sömuleiðis send út bréfleiðis til bænda eftir helgi. Áætlunin á að innihalda áætlaðar beingreiðslur, gæðastýringarálag og ullarnýtingargreiðslur. Svæðisbundinn stuðningur er ekki inn í áætluninni en hann á að bætast við hana um næstu mánaðamót og verðu hún þá uppfærð hjá þeim sem fá slíkan stuðning. Athugið að geymslugjald er ekki lengur greitt en fjárveitingar til gæðastýringar innifela nú þá fjármuni. 

Beingreiðslur vegna fyrstu tveggja mánaða ársins voru greiddar 1. febrúar síðastliðin. Í næstu viku verður það sem eftir stendur af af heildargreiðslu samkvæmt áætluninni fyrir janúar og febrúar greitt út. Þann 1. mars mun síðan venjuleg greiðsla berast samkvæmt ársáætluninni fyrir einn mánuð.

Lamb Inn fær upprunaviðurkenningu frá LS

| .

Fréttin birstist fyrst á vefsíðu bændablasðis, bbl.is

Lamb Inn á Öngulsstöðum hefur fengið sérstaka upprunaviðurkenningu Landssambands sauðfjárbænda og var fyrsti veitingastaðurinn á landsbyggðinni til að hljóta þessa viðurkenningu og sá þriðji í röðinni á landsvísu.

Um er að ræða nýtt markaðsátak sauðfjárbænda þar sem tilgangurinn er að ná til erlendra ferðamanna og sýna þeim hversu afurðir íslensku kindarinnar séu framúrskarandi hreinar og góðar.

Sambandið afhendir öllum þeim sem vinna ekta íslenskar afurðir úr sauðfé sérstakt upprunamerki sem prýða mun veggi veitingastaða og sömuleiðis þess fatnaðar sem framleiddur er hér á landi úr íslenskri ull. Ekki dugar að láta prjóna „íslensku“ lopapeysuna í Kína eða öðrum löndum. Þetta er afrakstur stefnumörkunar í markaðssókn sauðfjárafurða.

Skilar sér í hollu kjöti sem rómað er fyrir bragðgæði

Í texta með viðurkenningunni má finna þetta: Íslenskt sauðfé er alið á sjálfbæran hátt í óspjallaðri náttúru og lömbin sem fæðast á vorin reika sjálfala á fjöllum yfir sumarið, drekka móðurmjólk og éta næringarríkan fjallagróður. Þetta skilar sérlega hollu kjöti sem er rómað fyrir bragðgæði. Lagskipt ullin af íslenska fénu fyrirfinnst hvergi annars staðar og lopaklæði og gærur hafa haldið hita á þjóðinni í óblíðri íslenskri veðráttu í meira en þúsund ár. Stofninn kom til landsins með landnámsmönnum og er óspilltur og einstakur. Bændur eru vörslumenn landsins og búa enn á fjölskyldubúum eins og forfeður þeirra en hafa tileinkað sér það besta úr nútíma tækni og vísindum. Féð er alið á vistvænan hátt undir ströngustu reglum um dýravelferð, án aðskotaefna, erfðabreytts fóðurs eða hormónagjafar. Íslenskt sauðfé er nátengt landinu, menningu þjóðarinnar, siðum og tungumáli og lambakjöt er sannarlega þjóðarréttur Íslendinga. Aðeins ekta íslenskar afurðir bera þetta upprunamerki sem endurspeglar þennan sannleik og gildi íslenskra sauðfjárbænda.

Heiða vekur athygli

| .

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir hefur vakið athygli á heimsmeistaramótinu í rúningi sem nú fer fram á Nýja Sjálandi. Heiða, sem keppir ásamt Hafliða Sævarssyni er eina konan í keppninni í ár. Eftir fyrstu umferð situr Heiða nú í 52 sæti, en þess má geta að nýsjálenska féið sem notað er í keppninni er heldur frábrugðið því íslenska. Í byrjun árs flugu Heiða og Hafliði til Nýja Sjálands og unnu þar í tvær vikur hjá rúningsverktaka þar sen þau lærðu rúning samhliða vinnunni. Heiða segir í viðtali á heimasíðu mótsins að hún hafi lært meira á dvöl sinni á Nýja Sjálandi en á þeim 5 árum sem hún hefur rúið kindur. Heiða og Hafliðiði fóru út í byrjun janúar og hefur undirbúningstíminn að mestu farið í að venjast ull shetlandskynsins sem er ekki eins mjúk og sú íslenska. Stutt frétt um Heiðu og þátttöku hennar í mótinu birtist á heimasíðu heimsmeistaramótsins og má lesa hana hér.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Heiðu og Hafliða keppa í beinni geta gert það í gegnum vefsíðu Maori Television. Útsendingar byrja oftast um 18:45 á Íslenskum tíma (7:45 um morguninn á Nýja Sjálandi) og er dragskrá einnig birt samhliða á síðunni. Stundum getur dagskráinn byrjað á öðrum tíma og er þá gott að miða við að staðartíminn þar er 13 tímum á undan Íslandi.

Hildur Magnúsdóttir frumkvöðull mánaðarins

| .

Atvinnumál kvenna og Svanni-lánatryggingasjóður hefur útnefnt Hildi Magnúsdóttur, frumkvöðul og stofnanda Pure Natura á Sauðárkróki, frumkvöðul febrúarmánaðar. Pure Natura var stofnað í september 2015 og framleiðir vítamín og fæðubótarefni úr innmat og kirtlum úr íslensku sauðfé í bland við villtar íslenskar jurtir.

Á heimasíðu Atvinnumála kvenna segir að næstu skref hjá Pure Natura verði þau að koma vörunum á markað hér á landi og svo í framhaldinu stefnt á útflutning á Bandaríkjamarkað meðfram því að halda áfram með nýsköpun og þróun. „Fyrsta skref okkar í átt að koma vörunum okkar á markað var að stofna áheitareikning á Karolina fund, þar sem fólk getur heitið á okkur og tryggt sér í staðinn vörur úr fyrstu framleiðslulotu fyrirtækisins. En með því að gera þetta getur fólk ekki bara fengið sent heim að dyrum hágæða bætiefni sem styðja við hjarta og æðakerfi, lifrina og gefa aukna orku, á lægra verði en útsöluverð frá okkur verður þegar vörurnar koma á markað, en einnig stutt við íslenska nýsköpun í leiðinni,“ segir Hildur og hvetur fólk til að fara inn á Karolina fund og styðja við verkefnið. „Þetta er allt eða ekkert sjóður og bara nokkrir dagar eftir af verkefninu. Ef markmiðið næst ekki fyrir 10.febrúar detta öll áheit niður dauð.“

Sjá viðtal Atvinnumála kvenna við Hildi HÉR

Fréttin birtist fyrst á heimasíðunni feykir.is

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar