Ráðherra tryggir fjármagn í girðingar

| .

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tryggt allt að 10 milljóna króna viðbótarfjármagn til viðhalds sauðfjárveikivarnargirðinga samkvæmt frétt á vef ráðuneytisins. Þar kemur fram að bændur og dýralæknar séu uggandi yfir því að riða kunni að breiðast út frá Norðurlandi vestra og yfir á hrein svæði. ,,Verður þessum fjármunum varið til bráðaviðgerða á þeim svæðum sem mest hætta er talin vera á um útbreiðslu veikinnar" segir í fréttinni. 

Áður hafði Matrvælastofnun 11 milljónum króna úr að spila en fjárhæðin verður nú allt að 21 milljón króna. Í frétt á vef MAST segir að sauðfjárveikigirðingarnar gegni ,,lykilhlutverki í aðgerðum til upprætingar landlægra smitsjúkdóma á borð við riðuveiki og hjálpa að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma."

Undanfarnar vikur og mánuði hafa Landssamtök sauðfjárbænda ítrekað bent stjórnvöldum á nauðsyn þess að koma sauðfjárveikivarnargirðingum í gott lag hið fyrsta. Í nýlegri frétt á sauðfe.is kom meðal annars fram að árlega þurfi 25-30 milljónir króna hið minnsta, til að halda girðingum í horfi. Bráðaviðgerðafjárveitingin nú dugir því vart til. Töluvert hærri upphæð þarf til ef tryggja á að sauðfjárveikivarnargirðingar um land allt þjóni þeim tilgangi sem þeim er ætlað. 

Smellið hér til að skoða fréttina á vef atvinnuvegaráðuneytisins.

Smellið hér til að skoða fréttina á vef MAST.

Smellið hér til að skoða ítarlega frétt á saudfe.is frá 9. júlí sl.

Ástand sauðfjárvarnarveikigirðinga víða slæmt

| .

Ástand sauðfjárveikivarnargirðinga er víða slæmt og Landssamtök sauðfjárbænda hafa að undanförnu unnið ötullega að því að bragabót verði gerð þar á. Framkvæmdastjóri hefur hringt, sent tölvuskeyti og formleg bréf til viðeigandi aðila í stjórnsýslunni í anda samþykkta síðasta landsfundar samtakanna og bent á að það sé mat sauðfjárbænda að verulega vanti upp á að viðhaldi sauðfjárveikivarnargirðinga sé sinnt sem skyldi í samræmi við 12. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og annarra laga og reglugerða sem við eiga. 

Eftir því sem næst verður komist hamlar fjárskortur því að hægt sé að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru svo bæta megi úr. Þær aðgerðir sem eru brýnastar að mati yfirdýralæknis svo ekki stefni í óefni, þ.e. viðgerðir og endurbætur á Snæfellslínu, Gilsfjarðarlínu, Miðjarðarhólfi og fáeinum bútum til viðbótar, kosta líklega á bilinu 10-11 milljónir króna. Matvælastofnun hefur úr 8 milljónum að spila til þessara verkefna samkvæmt upplýsingum þaðan.  Hér er aðeins um að ræða það sem þarf að gera til að skilja að ósýkt svæði og þekkt sjúkdóma svæði og vernda líflambasölusvæði. Víða annars staðar eru sauðfjárveikivarnargirðingar varla fjárheldar og nauðsynlegt að verja fé til bóta á t.d. Tvídægrulínu, Hvammsfjarðarlínu og Kjalarlínu sem gætu kostað allt að 8 milljónum. Þá eru ótaldar aðrar línur þar sem þarf að laga eða endurnýja, s.s. Hvalfjarðarlína, Bláskógalína, Kýlingarlína o.fl.  

Til viðhalds þessa kerfis sauðfjárveikigirðinga þarf a.m.k. 25 -30 milljónir króna árlega. Ekki hefur verið farið í verulega endurnýjun á girðingum síðan árið 2013 þegar fé fékkst úr Verðmiðlunarsjóði (sem dugði þó ekki til). Það liggur ljóst fyrir að neyðarforvarnir duga ekki til langframa og eins að í óefni stefnir ef ekki verður gripið til viðeigandi aðgerða hið fyrsta. Lélegar girðingar þýða að fé fer á milli hólfa sem getur valdið bændum miklu tjóni og óþægindum. Farga þarf fé og greiða út bætur. Að mati Landssamtaka sauðfjárbænda er mun skynsamlegra að verja fé strax til viðhalds og og endurnýjunar girðinga.

Að auki er verið að taka verulega áhættu með því að ráðast eingöngu í neyðarviðgerðir, tjasla saman lélegum girðingum og leyfa öðrum að drabbast niður. Hætta á nýjum sýkingum er auðvitað alltaf fyrir hendi og gerist það – og fari sýkt fé á milli hólfa, er ljóst að tjónið getur orðið gríðarlegt. Fjárdauðin í vetur og vor er svo enn ein áminningin. Landssamtök sauðfjárbænda hafa óskað eftir því bæði formlega og óformlega að gerð verði bragabót á og fjármagn verði tryggt svo viðhalda megi sauðfjárveikivarnargirðingum á Íslandi með sóma.

íslenska sauðkindin í Bragðörk Slow Food

| .

Unnið er að því að fá íslenskt sauðfé og forystufé skráð inn í Bragðörk (Ark of taste) hinna alþjóðlegu Slow Food samtaka. Ein helstu rökin fyrir skráningunni eru sérstaða íslensku sauðkindarinnar og mikilvægi hennar til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika í veröldinni. Umsókn var formlega skilað inn í síðustu viku. 

 

Slow Food hreyfingin er ítölsk að uppruna og spratt upp sem einshvers konar andsvar við einsleitri og staðlaðri matvælaframleiðslu og næringarsnauðum skyndibita (fast food) sem hefur haft neikvæð áhrif bæði á heilsu, lífsgæði og menningu Vesturlanda. Þúsundir manna í rúmlega hundrað löndum eru nú meðlimir. Aðal markmið Slow Food er að auka meðvitund fólks um staðbundin og góð matvæli sem unnin eru í sátt við samfélag, hefðir og náttúru. Góður, hreinn og sanngjarn eru einkunnarorð samtakanna. Þar er átt við að maturinn eigi að vera náttúrulegur og laus við aukaefni, bragðast vel og vera framleiddur á sanngjarnan hátt.

 

Piero Sardo, framkvæmdastjóri stofnunar líffræðilegs fjölbreytileika hjá Slow Food er nú staddur á Íslandi. Bændasamtökin efndu í gær til vel heppnaðrar málstofu þar sem hann fór yfir það hvernig samtökin vinna að því að varðveita fjölbreytileika í matvælaframleiðslu í gegnum smáframleiðendur. Meðal annars með því að skrá einstakar afurðir eða búsfjárstofna í Bragðörkina. Í henni eru nú 2500 skráningar, þar af 12 frá Íslandi, fleiri en á nokkru hinna Norðurlandanna. Hér á landi hefur íslenska geitin verið tilnefnd og búið er að samþykkja hana inn ásamt t.d. hefðbundnu íslensku skyri.

 

 

Unnið er að skráningu fyrir íslenskt sauðfé og forystufé í Bragðörk Slow Food. Einnig er stefnt að því að skrá þar inn landnámshænuna og íslensku mjólkurkúna. Ólafur Dýrmundsson, fv. ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, hefur veg og vanda að þessum umsóknum. Búist er við svari frá Slow Food Foundation for Biodiversity eftir u.þ.b. mánuð.

 

Íslenskur sauðfjárbúskapur fellur afar vel að megin markmiðum Slow Food hreyfingarinnar.  Ljóst er að skráning íslensku sauðkindarinnar væri mikil viðurkenning á sérstöðu hennar og gæti orðið lyftistöng fyrir sauðfjárrækt og matartengda ferðamennsku á Íslandi.

 

Smellið myndina til að fara inn á heimasíðu íslensku Slow Food samtakanna.

Orsök ærdauðans í vetur og vor er enn óljós samkvæmt fyrstu áfangaskýrslu Matvælastofnunnar.

| .

Niðurstöðu úr rannsóknum á blóðsýnum í Noregi að vænta í lok mánaðarins. Rannsókn verður haldið áfram næsta haust.

Rannsókn á útbreiddum og óvenjumiklum fjárdauða í vetur og vor hefur enn ekki leitt í ljós hver ástæðan er. Fyrsta áfangaskýrsla Matvælastofnunnar um rannsóknina er kominn á vef stofnunarinnar. Þar eru greind svör við spurningakönnun sem gerð var meðal sauðfjárbænda í gegnum Bændatorg Búnaðarstofu. Eftir að farið hafði verið í gegnum hana, svör grisjuð og tvöföld svör tekin út, sátu eftir svör frá 311 bændum. Þessir bændur misstu samtals 4.095 kindur í vetur og vor sem er um 4,1% af bústofni þessara bænda. Þetta er um helmingi meira en þeir misstu á heilu ári þar á undan. Þetta stemmir í grófum dráttum við fyrri bráðabirgðabirgðatölur sem gerðar hafa verið opinberar.

Dýralæknar tóku blóðsýni á nokkrum bæjum og sendu kindur í krufningu að Keldum, þegar það átti við. Sýnin hafa verið send til Noregs til rannsókna en niðurstöðu úr þeim er ekki að vænta fyrr en í lok þessa mánaðar. Margar þeirra kinda sem krufnar voru drápust úr næringarskorti, þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu en krufningin hefur ekki varpað skýrara ljósi á orsök vandans. Hjá helmingi svarenda drapst meira en eðlilegt getur talist eða meira en 2%. Hjá 10% svarenda voru afföllin meiri en 8% og hæsta tíðnin var 30%.

Þar sem ekki hefur tekist að finna orsök þessarar aukningar í dauða er nauðsynlegt að halda rannsókninni áfram í haust og næsta vetur í samstarfi Matvælastofnunnar, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum og Landssamtaka sauðfjárbænda. Það verður væntanlega gert m.a. með nýrri spurningakönnun og með því að fylgjast með ákveðnum búum.

Frétt á vef Matvælastofnunnar

Áfangaskýrsla matvælastofnunnar

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar