Síðasta yfirborgunarvikan

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sláturtíð er nú komin á fullt skrið í öllum afurðastöðvunum 7.  Lömb hafa yfirleitt verið vænni en í fyrra, sumstaðar verulega.  Munurinn er þú mun meiri norðanlands en á Suðurlandi.

Næsta vika þ.e. 22.-26. sept (vika 39) er síðasta vikan þar álagsgreiðslur eru í boði fyrir innlögð lömb, með þeirri undantekningu að SS greiðir líka álag í viku 45 (3.-7. nóv), en þá eru allir aðrir hættir að slátra.

Álagsgreiðslurnar í næstu viku eru á bilinu 3-4%.  Meðalverðið er um 600 kr/kg ef miðað er við landsmeðaltal, sem lækkar svo í 596 kr/kg í viku 40 (29. sept - 3. okt).

Hundar drepa lömb á Skeiðum

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Athygli er vakin á umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis um alvarlegt atvik sem varð á Skeiðum í Árnessýslu í síðustu viku.  Þar réðust tveir lausir hundar á lömb.  Fimm lömb lágu í valnum á eftir.  Sjá nánar hér.

Sala í ágúst

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sala á kindakjöti í ágúst sl. var 642 tonn, en í sama mánuði 2013 var salan 621 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2013 (júní-ágúst) var salan 3,4% meiri en 2,4 % minni m.v. 12 mánaða tímabil (september-ágúst).

12 mánaða markaðshlutdeildin er þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti (32,1%), kindakjöt í 2. sæti (26,7%), svínakjöt í þriðja (24,3%), svo nautakjöt (14,7%) og loks hrossakjöt (2,3%). Heildarsala á innlendu kjöti dróst saman um 4,3% á tímabilinu.

Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við heildsölu afurðastöðva á innlendu kjöti. Innflutt kjöt er ekki talið með, en ekki var flutt inn neitt lamba- eða kindakjöt fyrstu sjö mánuði ársins 2014. Hinsvegar er verulega aukinn innflutningur á öðru kjöti, einkanlega nautakjöti. 

Útflutningur var 73 tonn í ágúst, samanborið við 131 tonn í ágúst 2013. Með útflutningi er heildarafsetning lamba- og kindakjöts 2% minni fyrstu átta mánuði ársins 2014 miðað við sömu mánuði 2013.

Birgðir í ágústlok, við upphaf sláturtíðar, voru 1.304 tonn, eða 239 tonnum meira en í lok ágúst 2013.  Þar af eru 1.140 tonn af framleiðslu ársins 2013. 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar