Metsala á fersku lambakjöti til Bandaríkjanna

| .

Verslanir bandarísku verslunarkeðjunnar Whole Foods hafa keypt meira af íslensku lambakjöti í haust en nokkru sinni fyrr. Fyrirtækið rekur á fimmta hundrað verslana í Norður Ameríku og Bretlandi sem sérhæfa sig í sjálfbærum, hreinum, náttúrulegum og lífrænum matvörum.

Strangar kröfur um hreinleika og sjálfbærni

Whole Foods er með sitt eigið gæðavottunarkerfi fyrir kjötvörur sem tekur til dýravelferðar, sjálfbærni og fleiri þátta. Viðmiðin í kerfinu eru sett í samvinnu við ýmsar opinberar stofnanir og félagasamtök.  Fyrirtækið gerir mjög stífar kröfur til gæða, sjálfbærni og uppruna alls sem selt er inn og fulltrúar þess hafa oftsinnis komið til Íslands til að kynna sér framleiðsluhætti hér.

Þriðjungs söluaukning frá í fyrra

Nokkur ár eru síðan sala á fersku íslensku lambakjöti hófst til Whole Foods og vöxtur hefur verið í sölunni, þótt hún hafi verið sveiflukennd. Í ár fór rúmlega 201 tonn utan, sem er met, og um 34% meira en í fyrra þegar salan var um 150 tonn. Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Sláturhúss KVH á Hvammstanga, sem sér um söluna, segir að enn séu mikil tækifæri fólgin í þessum viðskiptum.

Hægt að gera enn betur

„Þótt þetta sé gott ár, þá sjáum við ennþá mikil tækifæri og finnum fyrir vilja hjá Whole Foods til að auka enn viðskiptin“ segir Magnús Freyr. „Kalt vor hér heima og ýmsar fleiri ástæður ollu því að salan varð ekki ennþá meiri.“ Hann segir þessi viðskipti skipta miklu máli fyrir sitt fyrirtæki og að verðið sé gott sem fæst fyrir lambið. Whole Foods kaupi alla hluta lambsins og það skipti líka máli. „Við erum að vinna að því með Markaðsráði kindakjöts að auka þessu sölu enn meira og getum vonandi séð sölutölurnar hækka enn frekar ár frá ári.“

Frétt RÚV um málið.

SS kynnir sláturfyrirkomulag næsta hausts

| .

Sláturfélag Suðurlands hefur birt töflu yfir verðhlutföll næsta hausts. Í frétt á heimasíðu SS er bent á að mikilvægt sé fyrir bændur að vita sláturtíma og verðhlutföll tímalega fyrir fengitíma.

Í frétt SS kemur jafnframt fram að reynslan sýni að þörf sé á breytingum á sláturtíma næsta haust til að hvetja til slátrunar vikurnar fyrir og eftir réttir. Samfelldri slátrun verður seinkað um þrjá daga og bætt við þremur sláturdögum í nóvember. Jafnframt verður dregið úr slátrun fyrir samfelldan sláturtíma þar sem slík slátrun er óhagkvæm og hefur ekki skilað miklum ávinningi, að því er fram kemur.

Fundir um búvörusamninga

| .

Bændasamtökin héldu formannafund í gær til að kynna stöðu samningaviðræðna við ríkið um nýja búvörusamninga. Formlega hófust viðræður 1. september og fulltrúar bænda og stjórnvalda hafa fundað stíft síðan þá. Almennir bændafundir verða haldnir í héruðum um allt land þegar samningar verða fullgerðir en þær dagsetningar liggja ekki fyrir. Í kjölfar þeirra verður boðað til atkvæðagreiðslu meðal bænda. Næstu daga verða shins vegar almennir bændafundir um landið þar sem forystumenn bænda munu kynna stöðuna eins og hún blaðsir við nú. 

Staður

Dags.

 

Fundarstaður

Fundartími

Hella

24.nóv

þriðjudagur

Árhús

20:30

Eyjafjörður

25.nóv

miðvikudagur

Hlíðarbær

11:00

Borgarnes

25.nóv

miðvikudagur

Hótel Borgarnes

20:30

Egilsstaðir

26.nóv

fimmtudagur

Valaskjálf

11:00

 

Sérstakur fulltrúafundur LS

Landssamtök sauðfjárbænda hafa blásið til fulltrúafundar á næsta föstudag í Reykjavík. Þangað eru boðaðir fulltrúar allra aðildarfélaga LS. Dagskrá fundarins verður sem hér segir: 

 

11:00   Fundur settur á Hótel Sögu í Reykjavík

11:15   Skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri: Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings – Vífill Karlsson hjá RHA

12:00   Hádegisverður – Súpa og brauð í boði LS

13:00   Markaðsmál og framtíðarsýn – Svavar Halldórsson framkv.stjóri LS og Markaðsráðs

13:45   Viðræður um nýja sauðfjársamningar – Þórarinn Ingi Pétursson formaður LS

14:15   Almennar umræður

17:00   Fundi slitið

(Athugið að dagskráin hefur breyst dálítið)

MAST minnir á haustskýrsluskil

| .

Frestur til að skila inn haustskýrslum er til morguns, 20. nóvember. Einungis er hægt að skila rafrænt  á vefslóðinni www.bustofn.is.  Í tilkynningu á heimasíðu sinni hvetur Matvælastofnun búfjáreigendur til að virða skilafrestinn til að komast hjá óþarfa umstangi og kostnaði. 

Kindur

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar