Riðuveiki í Skagahólfi

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Riðuveiki greindist í síðustu viku á búi í Skagafirði. Aðeins er um mánuður síðan riða greindist á Vatnsnesi. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.

Fyrir skömmu fékk bóndinn í Valagerði í Skagafirði grun um riðuveiki í þremur ám og hafði samband við dýralækni. Kindunum var lógað og sýni send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, sem staðfesti nokkrum dögum síðar að um hefðbundna riðuveiki væri að ræða. Búið er í Skagahólfi en þar hefur riðuveiki komið upp á átta búum á undanförnum 15 árum en á þessu búi hefur veikin ekki greinst áður.

Fyrir aðeins um mánuði síðan greindist riðuveiki á búi á Vatnsnesi en þá hafði hefðbundin riða ekki greinst á landinu síðan árið 2010. Unnið er að gerð samnings um niðurskurð á því búi og í kjölfarið verður fénu lógað. Þessi tvö tilfelli eru ótengd enda sitt í hvoru varnarhólfinu.  

Sjá nánar hér á vef Matvælastofnunar.

Hestsbúið auglýst til leigu

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Landbúnaðarháskólinn auglýsir í Bændablaðinu 26. febrúar til leigu fjárbúið á Hesti í Borgarfirði. Þetta er gert vegna endurskipulagningar á búrekstri á vegum skólans.

Reksturinn á Hesti leigist ásamt bústofni, húsakosti og íbúðarhúsi auk Mávahlíðar í Lundarreykjadal sem nytjuð hefur verið frá Hestsbúinu. Gerð er krafa um að leiguliðar hafi menntun í búfræði og reynslu af búrekstri auk mikils áhuga á ræktun sauðfjár og samvinnu við sérfræðinga LbhÍ.

Markmiðið er því að reksturinn verði til fyrirmyndar í alla staði og geti áfram nýst til kennslu og rannsókna fyrir nemendur og starfsfólk LbhÍ.

Umsóknarfrestur um leigu á Hestsbúinu er til 1. apríl næstkomandi en gert ráð fyrir að viðkomandi taki við búinu 1. júní.

SS greiðir 2,4% uppbót

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sláturfélag Suðurlands hefur tilkynnt um greiðslu 2,4% viðbótar á andvirði afurðainnleggs 2014 til bænda. Greiðslan fer fram á morgun, 27. febrúar 2015. Í heild nemur viðbótin með virðisaukaskatti 52,4 m.kr.

Í tilkynningu félagsins segir m.a: "Afkoma SS var góð á árinu 2014. Í samræmi við stefnu félagsins um að tengja saman ávinning bænda af góðum hag SS er með þessum hætti miðlað hluta af hagnaði félagsins til innleggjenda. SS sýnir samvinnuhugsjónina í verki með þessum hætti og leggur áherslu á mikilvægi þess að bændur beini viðskiptum til félagsins til að styrkja áfram grundvöll fyrir því að félagið geti greitt viðbót á afurðaverð."

Þessi aukagreiðsla þýðir samkvæmt útreikningi L S að meðalverð SS fyrir innlagt lambakjöt sl. haust hækkar um rúmar 14 kr/kg og verður 610 kr í stað 596 kr/kg.  Meðalverð fyrir annað kindakjöt hækkar að sama skapi um rúmar 4 kr/kg og verður 176 kr/kg.

Þessi aukagreiðsla hækkar jafnframt meðalverð á landsvísu um tæpar þrjár krónur pr. kg . Það reiknast nú 599 kr/kg í stað 596 kr. Greiðslan hækkar landsmeðaltal á öðru kindakjöti um tæpa krónu sem þýðir að það verður 174 kr/kg.

Skylt að bólusetja í Héraðshólfi

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Reglugerð um garnaveiki og varnir gegn henni (nr. 911/2011)  hefur verið breytt.  Nú er skylt að bólusetja gegn veikinni í Héraðshólfi  nánar tiltekið á Austurlandi, frá Smjörfjallalínu að Lagarfljótslínu og Jökulsá í Fljótsdal að austan, þ.m.t. Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Hróarstunga og Fljótsdalur að norðanverðu. Í Fjarðabyggð sunnan varnarlínu í botni Reyðarfjarðar og í Breiðdalshreppi austan Breiðdalsár.

Ástæða breytingarinnar er að garnaveiki greindist í hólfinu í fyrra.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar