Áætlanir um refaveiðar.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Umhverfisstofnun hefur gert samninga við sveitarfélög til þriggja ára um refaveiðar. Að þremur árum liðnum er áætlað að fyrir liggi betri upplýsingar um stofnstærð refsins um land allt sem og frekari upplýsinga um tjón.

Refastofninn hefur líklega meira en tífaldast á síðustu 30 árum, eftir að hafa verið í sögulegri lægð. Þetta má að öllum líkindum rekja til bættra lífsskilyrða svo sem vegna aukins fæðuframboðs, en t.d. hefur fýl og heiðagæs fjölgað mikið á sama tímabili

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.   Í ár var 30 milljónum króna veitt á fjárlögum til að niðurgreiða kostnað sveitarfélaga við refaveiðar og gert er ráð fyrir sama framlagi 2015 og 2016. Forsenda endurgreiðslu er að viðkomandi sveitarfélag geri eða eigi aðild að samningi við Umhverfisstofnun um veiðarnar og fæst þá allt að þriðjungs niðurgreiðsla.  Til viðbótar er veitt rúmlega 20 milljónum króna til að niðurgreiða kostnað við minkaveiðar.

Samningsdrög eru nú til umsagnar hjá sveitarfélögunum og rennur frestur út 22. ágúst nk.  Ítarlega er gerð grein fyrir málinu á vef Umhverfisstofnunar.

Umsjón þróunarverkefna flutt til Framleiðnisjóðs

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Samið hefur verið um að umsjón með úthlutun styrkja til þróunarverkefna í sauðfjárrækt flytjist frá Bændasamtökum Íslands til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Framleiðnisjóður mun framvegis auglýsa eftir umsóknum og taka á móti þeim. Fagráð í sauðfjárrækt mun sem áður gefa umsögn um þær umsóknir sem berast, en úthlutun styrkja fer fram í stjórn Framleiðnisjóðs en ekki í stjórn Bændasamtakanna.

Umsækjendur sem fá styrki þurfa nú að óska eftir greiðslum hjá Framleiðnisjóði og jafnframt að skila öllum skýrslum þangað.  Umsýsla verkefna sem ekki er lokið flyst einnig til sjóðsins þannig að skýrslum eða beiðnum vegna slíkra verkefna ber einnig að beina til Framleiðnisjóðs.

Sjá nánar í nýjum verklagsreglum um styrkina. 

Sala í júní

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sala á kindakjöti í júní sl. var 441 tonn, en í sama mánuði 2013 var salan 415 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2013 (apr-júní) var salan 7,2% meiri en 0,5 % minni m.v. 12 mánaða tímabil (júl-júní).

12 mánaða markaðshlutdeildin er þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti (31,6%), kindakjöt í 2. sæti (26,3%), svínakjöt í þriðja (24,5%), svo nautakjöt (15 %) og loks hrossakjöt (2,6%). Kjötsala í heild dróst saman um 1,1% á tímabilinu.

Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við heildsölu afurðastöðva á innlendu kjöti. Innflutt kjöt er ekki talið með, en ekki var flutt inn neitt lamba- eða kindakjöt í frá janúar-maí 2014.

Útflutningur var 122 tonn í júní, samanborið við 71 tonn í júní 2013. Með útflutningi er heildarafsetning 1% minni fyrstu sex mánuði ársins 2014 miðað við sömu mánuði 2013.

Varnarlínur

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Tveir þingmenn spurðu um málefni sauðfjárveikivarnalína á Alþingi í vetur.  Svar við fyrirspurn Þórunnar Egilsdóttur um fjármögnun varnarlína var lagt fram fyrir skömmu.  Þar kemur fram að MAST sé að vinna gagnagrunn um ástand núverandi lína og á þeirri vinnu að ljúka í ár, en jafnframt kemur fram að fyrirhugað sé að skipa starfshóp til að endursskoða að nýju skipan varnarlína.  LS hefur ekki verið tilkynnt um slíkan hóp, en síðustu endurskoðun lauk 2006, en úrvinnslu þeirra tillagna lauk hinsvegar ekki fyrr en þremur árum seinna, eða 2009.

Áður var búið að leggja fram svar við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um niðurrif aflagðra varnarlína, en svör við henni eru mjög stuttaraleg og varpa litlu ljósi á það sem spurt er um.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar