Umsóknarfrestur líflambakaupa framlengdur

| .

Matvælastofnun hefur ákveðið að framlengja umsóknarfrest vegna líflambakaupa til miðnættis þann 15. júlí, í stað þess að miða við 1. júlí. Þetta helgast af töfum á afgreiðslu mála hjá stofnuninni sem urðu vegna verkfalls dýralækna, að því er lesa má út úr frétt frá stofnuninni. Svarfrestur lengist líka um hálfan mánuð.

Matvælastofnun leggur áherslu á að umsóknir sem berast of seint verða ekki afgreiddar!

Fyrir skömmu áréttaði Matvælastofnun í annarri frétt alvarleika sauðfjárdauðans í vetur og vor sem gæti haft áhrif á líflambasölu. Þar segir m.a.:

Í ljósi þess óvenjulega sauðfjárdauða sem vart hefur orðið við víðsvegar um landið áskilur Matvælastofnun sér rétt til að stöðva allan flutning sauðfjár án tafar ef aðstæður gefa til kynna hættu á útbreiðslu sjúkdóma.

Frétt MAST frá 29. júní. 

Frétt MAST frá 19. júní. 

Landbótaáætlanir framlengjast sjálfkrafa

| .

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði á dögunum breytingar við landnýtingarþátt reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/21013.

Allar landbótaáætlanir sem féllu úr gildi um síðustu áramót og hefðu átt að falla úr gildi um næstu áramót, framlengjast sjálfkrafa til 1. mars. Þetta þýðir að bændur hafa nú rýmri tíma til að endurnýja landbótaáætlanir og geta því áfram tekið þátt í gæðastýringunni.

Nú geta bændur á ný fengið aðstoð frá viðkomandi héraðsfulltrúum Landsgræðslunnar við gerð landbótaáætlana. Þessi liður hafði fallið út við síðustu breytingar en það var sameiginlegt mat þeirra sem að þessum málum koma að sú breyting hefði verið til hins verra. Nú hefur þessu hins vegar verið breytt til baka og er eins og það var. Enn þarf samt að fá lokastaðfestingu frá Matvælastofnun.

Hér má sjá reglugerðina og uppfærsluna.

Frestur til að svara könnun til miðnættis á sunnudag!

| .

Nú hafa 251 svarað könnun Landssambands sauðfjárbænda (LS) og Matvælastofnunnar (MAST) á Bændatorginu um óvenjumikinn og óútskýrðan fjárdauða í vetur og vor. Mikilvægt er að bændur svari eftir bestu getu, bæði þeir sem misst hafa fé eða eru með óvenjulélegt fé - og eins hinir sem ekki hafa orðið varir við neinn óvenjulegt.

Niðurstöðurnar hingað til benda til þess að a.m.k. tvöfalt fleiri kindur hafi drepist núna frá hausti 2014 til vors 2015 en frá hausti 2013 til haustsins 2014. Þá var kindadauðin frá hausti 2013 til haustsins 2014 líka talsvert meiri en frá hausti 2012 til haustsins 2013.

Enn hefur ekki fengist nein haldbær skýring á þessum miklu afföllum. MAST hefur tekið sýni á nokkrum völdum bæjum í vikunni og verða þau greind bæði á Keldum og hjá Dýralæknaháskólanum í Osló. Nokkrar kindur hafa líka verið krufnar.

Frestur til þess að svara spurningakönnuninni á Bændatorginu (http://torg.bondi.is/) er til miðnættis (24:00) á sunnudaginn (28. júní 2015).

Ærdauði í vor að minnsta kosti 120% meiri en síðasta árið - Matvælastofnun hefur hafið víðtæka sýnatöku

| .

Nýverið sendu Landssamtök sauðfjárbænda og Matvælastofnun út ítarlega spurningakönnun til allra sauðfjárbænda vegna óvenjumikils óútskýrðs ærdauða í vetur og vor. Með því að gera könnunina í gegnum Bændatorg Búnaðarstofu er hægt að tengja allar nýjar upplýsingar við þá gagnabanka sem til eru. Niðurstöðurnar eru sláandi og sýna glöggt hversu alvarlegt ástandið er.

Þúsundir kinda veslast upp og drepast

Sauðfjárdauðinn hefur orðið á fjölmörgum bæjum víða um land, að því er virðist óháð gæðum heyja. Inngrip bænda og aukin fóðurbætisgjöf hefur ekki skipt sköpum. Strax upp úr áramótum fóru bændur að taka eftir einkennum hjá fénu, það hélt illa holdum en hafði þó góða matarlyst. Þrátt fyrir að bændur hafi strax gripið til ráðstafana með aukinni fóðurbætisgjöf o.þ.h., virtist það koma fyrir lítið og margt fé drapst, mest í kringum sauðburð.

233 bændur hafa svarað

Um hádegið í dag (22. júní) höfðu 223 bændur svarað könnuninni á Bændatorginu. Margir þeirra hafa misst fleira fé en eðlilegt getur talist. Oft miklu fleira. Hafa ber í huga að svör hafa einnig borist frá bændum þar sem allt hefur verið eðlilegt og svör þeirra lækka því öll meðaltöl. Ástandið á einstaka bæjum er mjög alvarlegt. Könnunin er ítarleg og margir bændur taka sér góðan tíma í að svara. Til viðbótar þeim 223 sem þegar hafa svarað, hafa 500 bændur opnað könnunina og skoðað eða byrjað að svara. Því má búast við enn fleiri svörum á næstunni. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) býður bændum aðstoð við að fylla út könnunina.

Svörin sýna óeðlilega mikinn fjárdauða

Af þessum 223 svörum sem komin eru má ráða að ærdauðinn í vetur og vor er án nokkurs vafa óeðlilega mikill. Stór hluti þeirra bænda sem svaraði segist hafa aukið mjög við fóðurbætisgjöf. Dæmi eru um að hún hafi verið allt að tífölduð miðað við venjulegt ár. Alls hafa 2.741 ær (nokkrir hrútar eru einnig inni í þessari tölu) drepist í vor og vetur (frá hausti 2014 til vors 2015). Hér er aðeins verið að tala um hluta úr ári og venjuleg sumarafföll eru ekki inni í þessari tölu. Þetta eru tölur frá þeim 223 bændum sem hafa svarað könnuninni.

Helmingur drapst fyrir burð

Af þessum 2.741 ám sem drápust í vetur og vor hjá þeim 223 bændum sem hafa svarað könnuninni, voru 1.345 óbornar, eða um 49%. Reikna má með því að heildartala dauðra áa sé enn hærri en þessar tölur gefa til kynna, enda margir sem ekki hafa enn svarað. Þá hefur lambadauði einnig verið mikill í vor.

Meira en tvöfalt fleiri ær hafa drepist en árið á undan

Til samanburðar drápust 1.242 ær á heilu ári þar á undan (haust 2013 til hausts 2014). Þetta er um 119% aukning, jafnvel þótt tímabilið sé styttra. Sé farið ári lengra aftur í tímann (haust 2012 til hausts 2013) sést að þá drápust 998 dýr. Aukningin miðað við það er 175%.

Tímabil                                           Dauðar ær (m.v. svör frá 223 bændum)                       

Haust 2014 – vor 2015 (tæpt ár)                     2.741

Haust 2013 – haust 2014 (heilt ár)                 1.242

Haust 2012 – haust 2013 (heilt ár)                   998

Rannsókn hófst 9. júní en fjárdauðinn enn óútskýrður

Landssamtök sauðfjárbænda hófu rannsókn á ærdauðanum þriðjudaginn 9. júní, eftir að ábendingar höfðu borist frá Margréti Katrínu Guðnadóttur dýralækni í Borgarnesi og nokkrum bændum. Fljótlega kom í ljós að vandamálið er útbreitt. Niðurstöðurnar hingað til sýna að það er útbreiddast um vestan- og norðanvert landið. Þó hefur óeðlilega margt fé drepist í öllum landshlutum. Tekin voru 35 blóðsýni úr veikum kindum á Norðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum.  Að auki voru 7 kindur krufnar á Keldum. Áður höfðu Keldur fengið 6 ær til krufningar frá bændum svo í heildina hafa þrettán ær verið krufnar. Enn bólar ekkert á skýrum svörum.

Samvinna Landssamtaka sauðfjárbænda og Matvælastofnunar

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda og fulltrúar Matvælastofnunar (MAST) hittust á föstudaginn (19. júní) til þess að fara yfir stöðuna. Fulltrúar MAST á fundinum voru þær Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir og Anna Karen Sigurðardóttir sérgreinadýralæknir sauðfjársjúkdóma. Það var samdóma álit að ástandið væri óvenjulegt og alvarlegt. Því beri að rannsaka orsakirnar vandlega.

Víðtæk rannsókn Matvælastofnunnar - Sýni send utan 

MAST hefur valið 10 fjárbú til rannsókna og sýnatöku. Tekin verða blóðsýni, auk þess sem velja á veikburða ær til krufningar. Um 20 sýni verða tekin á hverjum bæ, 10 úr sauðfé sem sýnir einkenni og 10 úr sýnilega heilbrigðu fé. Samtals verða því tekin sýni úr 200 ám. Heimsóknir dýralækna á vegum MAST eru hafnar og verður lokið á næstu dögum. Blóðsýnin verða að hluta rannsökuð á Keldum en verða svo send til framhaldsrannsóknar hjá Sentrallaboratoriet hjá norska dýralækna háskólanum í Osló í Noregi.

Rannsóknin er nú að fullu í höndum Matvælastofnunnar í náinni samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda. Matvælastofnun hefur fengið í hendur öll sýni og rannsóknarniðurstöður þeirrar frumrannsóknar sem Margrét Katrín Guðnadóttir og Landssamtök sauðfjárbænda unnu. Þá munu samtökin áfram hvetja bændur til að svara í samvinnu við RML.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar