Formannafundur krefst þess að sáturleyfishafar virði löglegt viðmiðunarverð

| .

Formannafundi Landssamtaka sauðfjárbænda á Birkimel á Barðaströnd var að ljúka. Þar var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing: 

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda, haldinn á Birkimel á Barðaströnd 26. ágúst 2016, krefst þess að sláturleyfishafar virði það viðmiðunarverð sem samtökin gáfu út þann 28. júlí í samræmi við skýra heimild 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993.

Fundurinn álítur viðmiðunarverð samtakanna vera það lágmark sem bændur verða að fá.

Yfirlýsingar tiltekinna sláturleyfishafa og tilkynningar um lækkun afurðaverðs eru óskiljanlegar á meðan innanlandssala eykst, ferðamönnum fjölgar, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið.

Stjórnir og stjórnendur afurðastöðva dragi þær tafarlaust til baka áður en óafturkræf áhrif koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins. Fundurinn skilur erfiðar aðstæður sláturleyfishafa sem þurfa að kljást við fákeppni á smásölumarkaði, launaskrið og kostnaðarhækkanir. Fundurinn hafnar hins vegar ásetningi fyrirtækjanna að velta fortíðarvanda, kostnaðar- og launahækkunum eingöngu yfir á bændur.

Fundurinn skorar á þá sláturleyfishafa sem ekki hafa enn gefið út verskrár að virða lögmætt og hófstillt viðmiðunarverð Landssamtaka sauðfjárbænda.

 

Ítarefni til glöggvunar er að finna hér að neðan.

Blönduós eltir galna ákvörðun Vopnfirðinga

| .

Sláturhús SAH afurða á Blönduósi hefur lækkað verð til samræmis við verðskrá Sláturfélags Vopnfirðinga frá í gær þar sem boðuð er 12% lækkun til bænda. Rök beggja húsa eru af svipuðum toga - að bændur skuli bera tap vegna uppsafnaðra birgða af gærum og aukaafurðum. Húsið ber líka fyrir sig gengisþróun. Landssamtök sauðfjárbænda harma þessar ákvarðanir. Harkaleg 12% lækkun á lambakjöti sætir furðu á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið. Samtökin telja röksemdafærslu beggja fyrir lækkun einsýnt að hvorki bændur né sláturleyfishafar. 

Galin ákvörðun Sláturfélags Vopnfirðinga

| .

Sláturfélag Vopnfirðinga fetaði í gær í fótspor Norðlenska með tilkynningu um einhliða 12% lækkun á afurðaverði í bréfi til bænda. Landssamtök sauðfjárbænda harma þessa ákvörðun og telja hana álíka glórulausa og þá sem Norðlenska kynnti í gær. Samtökin óttast afleiðingarnar fyrir greinina og sveitir landsins. Harkaleg 12% lækkun á lambakjöti sætir furðu á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið.

Færa fé frá bændum til fákeppnisfyrirtækja

Í bréfinu koma fram áhyggjur Sláturfélags Vopnfirðinga af því að verslunin í landinu muni gera kröfu um að fá hluta boðaðrar lækkunar til bænda í sinn hlut. Landssamtök sauðfjárbænda taka heilshugar undir þessar áhyggjur. Fákeppni ríkir á dagvörumarkaði á Íslandi að mati Samkeppniseftirlitsins og verslunin hér skammtar sér margfaldri arðsemi miðað við önnur lönd. Forystumenn Landssamtaka sauðfjárbænda hafa að undanförnu varað stjórnendur og stjórnarmenn afurðastöðva við hættunni á því að lækkun til bænda endi að öllu eða miklu leyti í vasa verslunarinnar. Miðað við reynslu undanfarinna ára muni hvorki neytendur né afurðastöðvar njóta góðs af verðlækkun til bænda. Samtökin eru því gáttuð á ákvörðun Sláturfélags Vopnfirðinga - sem virðist hreinlega galin í ljósi eigin rökstuðnings félagsins.

Bændur rukkaðir fyrir andvaraleysi annarra

Sláturfélag Vopnfirðinga segir í bréfinu að útflutningur á hliðarafurðum hafi gengið illa og birgðir safnast upp. Landssamtök sauðfjárbænda draga þetta ekki í efa en minna á að þau hafa ítrekað talað fyrir því að hverfa beri frá stefnu um að selja inn á alþjóðlega hráefnismarkaði. Selja eigi íslenskar sauðfjárafurðir sérstaklega sem slíkar, enda sýni reynslan að þannig fæst réttlátara verð. Þetta kemur meðal annars fram í stefnumótun samtakanna um aukið virði sauðfjárafurða sem er hluti af nýjum sauðfjársamningi. Samtökin mótmæla harkalega þeim glórulausu röksemdum Sláturfélags Vopnfirðinga sem fram koma í bréfinu að lækkunin nú sé hugsuð til að liðka fyrir útflutningi þessara umframbirgða. Ekki er boðlegt að fyrirtæki sem er að mestu í eigu bænda velti uppsöfnuðum rekstrarvanda yfir á sveitir landsins – vanda sem er tilkominn er vegna andvaraleysis fyrirtækisins sjálfs.

Afurðastöðvar nýti svigrúm á markaði

Landssamtök sauðfjárbænda gáfu út vel rökstutt viðmiðunarverð í lok júlí. Þau telja hæfilegt að afurðaverð hækki um 12,5% sem er í samræmi við þriggja ára áætlun sem sett var fram í fyrra. Í rökstuðningi Sláturfélags Vopnfirðinga kemur fram að 12% hækkun á innanlandsmarkaði þurfi til að halda verði til bænda óbreyttu miðað við rekstrarstöðu fyrirtækisins. Samtökin draga ekki efa að þetta sé mat stjórnenda Sláturfélags Vopnfirðinga en lýsa hins vegar furðu sinni á því að þeir hækki ekki verð um a.m.k. sem því nemur – enda svigrúm til þess. Í viðamikilli skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið - Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings - frá í október 2015, kemur fram að verðbreytingar á lambakjöti hafa takmörkuð áhrif á eftirspurn. Verð á öðrum kjöttegundum skiptir meira máli. Hækka megi útsöluverð á lambakjöti um 12% til 18% án teljandi áhrifa á sölu. Landssamtök sauðfjárbænda hvetja stjórn og stjórnendur Sláturfélags Vopnfirðinga til að falla frá boðaðri einhliða lækkun og kynna sér efni skýrslunnar áður en illa ígrundaðar ákvarðanir eru teknar sem varða líf og afkomu bænda.

Glórulaus ákvörðun Norðlenska

| .

Landssamtök sauðfjárbænda harma harkalega ákvörðun afurðasölufyrirtækisins Norðlenska um einhliða verðlækkun til bænda og óttast afleiðingar hennar fyrir sveitir landsins. 38% lækkun fyrir kjöt af fullorðnu sauðfé og 10% lækkun á lambakjöti er gersamlega glórulaus á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið.

Launahækkunum velt yfir á bændur

Fyrir þessa lækkun hafði verð á sláturfé til bænda lækkað að raungildi um 5,6% á þremur árum og þyrfti að hækka um 5,9% til að halda í við verðlagsþróun. Norðlenska tiltekur nokkrar ástæður fyrir þeirri ákvörðun sinni að ganga enn harðar fram gegn bændum:

  • Miklar launahækkanir
  • Heildsöluverð stendur í stað
  • Slæmar horfur á útflutningsmörkuðum
  • Styrking á gengi krónunnar og háir vextir

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 24,1% frá janúar 2014 til júní 2016. Ef eingöngu er litið til síðustu 12 mánaða hækkaði launavísitalan um 12,5%. Laun hafa þannig vissulega hækkað að undanförnu á sama tíma og raunverð til sauðfjárbænda hefur lækkað. Rökstuðningur Norðlenska sýnir að fyrirtækið ætlar sér blygðunarlaust að velta verð- og launahækkunum yfir á bændur.

Hagsmunum bænda kastað fyrir róða

Smásöluverð á lambakjöti hækkaði aðeins um 41,4% frá ársbyrjun 2007 fram á mitt þetta ár en almenn hækkun á mat og drykkjarvörum var 65,9% á sama tímabili samkvæmt Hagstofu Íslands. Afurðaverð til íslenskra bænda er að auki með því lægsta sem þekkist í Evrópu og meginhluti af endanlegu útsöluverði rennur í vasa milliliða. Norðlenska teflir því fram í rökstuðningi sínum fyrir lækkun til bænda nú að heildsöluverð hafi ekki hækkað í takti við launaskrið síðustu ára. Landssamtök sauðfjárbænda rengja þá fullyrðingu ekki. Þau gera sér líka grein fyrir því að afurðasölufyrirtækin þurfa að kljást við fákeppnis-dagvörumarkað sem skilar margfaldri arðsemi miðað við önnur lönd. Samtökin telja hins vegar óboðlegt að afurðarstöðvar í eigu bænda leggi árar í bát og bregðist við stöðunni með því að kasta hagsmunum bænda fyrir róða.

Bændur blæða fyrir spádóma

Allt bendir til þess að þjóðarrétturinn lambakjöt sé í sókn, sala innanlands er góð og sala til veitingastaða á uppleið. Öflugt markaðsstarf, aukinn ferðamannastraumur og vakning hjá íslenskum neytendum um gæði og hollustu íslenska lambakjötsins skipta þar sköpum. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á frosnu lambakjöti verið á uppleið og hækkað um 12,6% frá áramótum samkvæmt tölfræðigögnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Norðlenska tiltekur í rökstuðningi sínum að horfur séu slæmar á útflutningsmörkuðum. Landssamtök sauðfjárbænda rengja ekki þetta mat fyrirtækisins, þótt það sé á skjön við alþjóðlegar hagtölur. Samtökin átelja hins vegar harðlega að verð til bænda sé lækkað á grundvelli þessara spádóma fyrirtækisins.

Sveitirnar að veði

Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands kemur fram að þrátt fyrir sterkt gengi séu efnahagshorfur betri en áður var spáð og líkur á hagvexti í helstu viðskiptalöndum. Bankinn tilkynnti í morgun um fyrstu vaxtalækkun sína í tvö ár. Rökstuðningur Norðlenska fyrir lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í ljósi efnahagsaðstæðna og vaxtastigs hljómar einkennilega í ljósi þessa nýjasta útspils Seðlabankans. Landssamtök sauðfjárbænda óttast að ákvörðun fyrirtækisins um afurðaverðslækkun nú geti haft neikvæð áhrif á greinina alla. Samtökin hvetja stjórn fyrirtækisins og stjórnendur til að endurskoða hana áður en óafturkræf áhrif hennar koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar