Verð 2013

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Eins og fram hefur komið hér á síðunni greiddu SS, KS og SKVH uppbótargreiðslur á innlagt kindakjöt 2013 fyrir skömmu.  SS greiddi uppbót á allt innlegg en KS og SKVH á lambakjöt.   Aðrar afurðastöðvar hafa ekki tilkynnt hvort þær hyggist greiða uppbætur.  Til fróðleiks er hér að neðan birt afurðaverð hvers fyrirtækis fyrir sig eins og það var þegar búið er að bæta framangreindum greiðslum við.  

2013 Lömb Fullorðið Samtals
KS og SKVH  598 kr.  175 kr.  568 kr.
SS  597 kr.  180 kr.  567 kr.
NL  582 kr.  175 kr.  552 kr.
SV  582 kr.  175 kr.  552 kr.
SAH  582 kr.  175 kr.  552 kr.
Fjallalamb  572 kr.  183 kr.  545 kr.
       
Landsmeðaltal  590 kr.  176 kr.  560 kr.

Verðið er sem fyrr vegið meðalverð miðað við kjötmat og sláturtíma á landsvísu. Landsmeðaltal er vegið miða við hlutdeild hvers fyrirtækis í slátrun og heildarverð vegið miðað við hlutdeild lambakjöts annars vegar og annars kindakjöts hinsvegar í framleiðslunni.  Verðið er námundað að næstu heilu krónu, en reiknað með fullri nákvæmni.

Miklar framfarir í gerð.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Athygli er vakin á því að búið er að reikna nýtt kynbótamat með hliðsjón af niðurstöðum skýrsluhalds 2013.  Matið er aðgengilegt í Fjárvís en á vef RML er m.a. hægt að skoða uppfært mat sæðingarhrútanna sem voru á stöð í vetur.

Á vef RML má einnig skoða erfðaframfarir í stofninum í heild sl. 20 ár. Miklar framfarir hafa náðst í öllum eiginleikunum fjórum sem metnir eru þ.e. gerð, fitu, mjólkurlagni og frjósemi.  Stórstígustu breytingarnar eru í gerðinni en þar hefur matið hækkað um rúm 16% þessa síðustu tvo áratugi.  Slíkt er verulegt þegar tekið er tillit til þess að hér er verið að meta alla skýrslufærða hrúta í landinu.

Frestur vegna sauðamjólkurverkefnis

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Athygli er vakin á því að frestur til að óska eftir þátttöku í sauðamjólkurverkefni LS, RML og Matís rennur út þann 17. apríl næstkomandi (þ.e. á skírdag).  Auglýst var eftir þátttakendum í Bændablaðinu 20. mars sl. Tilgangur verkefninsins er að hvetja til aukinnar sauðamjólkurframleiðslu og stuðla að auknu framboði afurða úr henni.

Gert er ráð fyrir að þeir sem valdir verða til þáttöku fái aðgang að ráðgjöf frá samstarfsaðilum LS um framleiðsluhætti og/eða vöruþróun.

Ef þú ert sauðfjárbóndi sem hefur áhuga á að taka þátt í þessu þá ertu beðinn að senda umsókn þess efnis til Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændahöllinni við Hagatorg, 107 Reykjavík, ekki síðar en 17. apríl næstkomandi. Í umsókn þarf að koma fram hvað þú áætlar að geta mjólkað margar ær, hvenær þú áætlar að mjaltir geti hafist og hvort þú hefur áhuga á að leggja mjólkina inn eða vinna úr henni sjálf/ur. Einnig þarf að koma fram hvort að þú hefur nú þegar aðstöðu til mjalta eða hvort að fjárfestinga er þörf til að koma henni upp.

Ennfremur er bent á grein Árna B. Bragasonar hjá RML um efnið sem birtist í Bændablaðinu 20. mars.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar