Fjár- og stóðréttir í haust

| .

Bændablaðið birtir lista yfir fjár og stóðréttir haustsins í nýjasta tölublaði sínu og einnig er hægt að skoða kortá vefnum. Smellið hér, á forsíðu blaðsins eða á kortið til að skoða nánar.

Bændablaðið minnir á að villur geta slæðst inn og eins geta náttúruöflin raskað áætlunum. Blaðið hvetur lesendur til að hafa samband við heimamenn á hverjum stað til að fullvissa sig um réttar dag- og tímasetningar.

Lambakjötið í öndvegi

| .

Íslenskt eldhús hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár. Íslenskir matreiðslumenn hafa staðið sig frábærlega á erlendri grund og aukin ferðamannastraumur hefur skotið nýrri og sterkri stoð undir rekstur veitingastaða hér. En þrátt fyrir mikla fjölgun veitingastaða sem sérhæfa sig í íslenskum mat eru ennþá af einhverjum ástæðum aðeins örfáir veitingastaðir á Íslandi sem sérhæfa sig í lambakjöti og lambakjötsréttum.

Fjölskyldurekinn lambakjötsstaður

Einn þessara fáu staða er Lamb Inn á Öngulstöðum í Eyjafirði. Fjölskyldurekinn veitingastaður í tengslum við aðra ferðaþjónustu á bænum. Sá rekstur hefur verið óslitinn frá 1996 en veitingastaðurinn Lamb Inn er þriggja ára. Einkennisréttur staðarins er hægeldað íslenskt lambalæri með heimalögðu rauðkáli, grænum baunum, kartöflum, sósu og rabbabarasultu. Semsagt, sunnudagssteik alla daga. Að auki má fisk, súpur, hnetusteik, heimabakað brauð og flotta eftirrétti – að ógleymdum lambborgaranum, en lærið er aðalsmerki staðarins.

Veisla í ágúst að áliðnum slætti

Lamb Inn er fyrst og fremst sumar staður þar sem gestir og gangandi geta komið við, en þó geta hópar pantað yfir veturinn. Svo er bjórinn líka úr héraði, Kaldi frá Bruggsmiðjunni á Árskógssandi. Í sumarlok verður svo slegið upp dálítilli veislu þar sem lambið verður áfram í öndvegi. Nánar má lesa um fyrirkomulagið hér að neðan. Eins er hægt að smella á myndina til að fara beint inn á heimasíðu staðarins. 

Bændablaðið safnar upplýsingum um réttir

| .

Síðustu ár hefur Bændablaðið lagt mikinn metnað í að safna saman og birta upplýsingar um hvenær helstu stóð- og fjárréttir landsins eru. Mörgum hefur þótt gott að geta flett upp á dagsetningunum í blaðinu, en réttalistinn verður birtur í Bændablaðinu sem kemur út 27. ágúst. 

Í frétt í vefútgáfu þess kemur fram að þessar upplýsingar hafi mikið verið nýttar, ekki síst af almenningi og aðilum í ferðaþjónustu. Bændablaðið óskar liðsinnis fjallskilastjóra og annarra viðkomandi við að afla sem bestra og réttastra upplýsinga.

Færri lömb á fyrsta degi sumarslátrunar

| .

Sumarslátrun hófst hjá sláturhúsi SKVH á Hvammstanga á mánudaginn. Eins fram kom í frétt á saudfe.is 8. ágúst var greitt 25% álag fyrsta sláturdaginn. Næsti sláturdagur verður svo mánudaginn 24. ágúst en þá verður álagið 20% sem þýðir 686 kr. á kíló til bónda í flokki R3. 
 
Haft er eftir Magnúsi Frey Jónssyni, framkvæmdastjóra sláturhússins í frétt á RÚV að helmingi færri lömbum hafi verið slátrað á fyrsta degi slátrunar nú en í fyrra. Þá sé meðalþyngdin líka minni. 
 
Áfram verður slátrað mánudaginn 31. ágúst og 1.-2. september samkvæmt frétt á vef sláturhússins. Haustslátrun hefst svo mánudaginn 7. september. Áhugasamir geta haft samband við Sveinbjörn Magnússon verkstjóra slátrunar í síma 895-1147 eða sent tölvupóst á svenni@skvh.is.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar