Umsjón þróunarverkefna flutt til Framleiðnisjóðs

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Samið hefur verið um að umsjón með úthlutun styrkja til þróunarverkefna í sauðfjárrækt flytjist frá Bændasamtökum Íslands til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Framleiðnisjóður mun framvegis auglýsa eftir umsóknum og taka á móti þeim. Fagráð í sauðfjárrækt mun sem áður gefa umsögn um þær umsóknir sem berast, en úthlutun styrkja fer fram í stjórn Framleiðnisjóðs en ekki í stjórn Bændasamtakanna.

Umsækjendur sem fá styrki þurfa nú að óska eftir greiðslum hjá Framleiðnisjóði og jafnframt að skila öllum skýrslum þangað.  Umsýsla verkefna sem ekki er lokið flyst einnig til sjóðsins þannig að skýrslum eða beiðnum vegna slíkra verkefna ber einnig að beina til Framleiðnisjóðs.

Sjá nánar í nýjum verklagsreglum um styrkina. 

Sala í júní

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Sala á kindakjöti í júní sl. var 441 tonn, en í sama mánuði 2013 var salan 415 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2013 (apr-júní) var salan 7,2% meiri en 0,5 % minni m.v. 12 mánaða tímabil (júl-júní).

12 mánaða markaðshlutdeildin er þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti (31,6%), kindakjöt í 2. sæti (26,3%), svínakjöt í þriðja (24,5%), svo nautakjöt (15 %) og loks hrossakjöt (2,6%). Kjötsala í heild dróst saman um 1,1% á tímabilinu.

Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við heildsölu afurðastöðva á innlendu kjöti. Innflutt kjöt er ekki talið með, en ekki var flutt inn neitt lamba- eða kindakjöt í frá janúar-maí 2014.

Útflutningur var 122 tonn í júní, samanborið við 71 tonn í júní 2013. Með útflutningi er heildarafsetning 1% minni fyrstu sex mánuði ársins 2014 miðað við sömu mánuði 2013.

Varnarlínur

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Tveir þingmenn spurðu um málefni sauðfjárveikivarnalína á Alþingi í vetur.  Svar við fyrirspurn Þórunnar Egilsdóttur um fjármögnun varnarlína var lagt fram fyrir skömmu.  Þar kemur fram að MAST sé að vinna gagnagrunn um ástand núverandi lína og á þeirri vinnu að ljúka í ár, en jafnframt kemur fram að fyrirhugað sé að skipa starfshóp til að endursskoða að nýju skipan varnarlína.  LS hefur ekki verið tilkynnt um slíkan hóp, en síðustu endurskoðun lauk 2006, en úrvinnslu þeirra tillagna lauk hinsvegar ekki fyrr en þremur árum seinna, eða 2009.

Áður var búið að leggja fram svar við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um niðurrif aflagðra varnarlína, en svör við henni eru mjög stuttaraleg og varpa litlu ljósi á það sem spurt er um.

Úrskurður yfirítölunefndar ókominn.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Enn er beðið úrskurðar yfirítölunefndar vegna beitar á Almenningum. Á meðan er fé rekið á afréttinn í samræmi við fyrri úrskurð

Í fyrra var fé rekið í Almenninga í Rangárþingi eystra, afrétt sem liggur að Þórsmörk, í fyrsta sinn í ríflega tuttugu ár. Ítölunefnd, sem metur beitarþol, hafði þá úrskurðað að bændur mættu beita þar 50 lambám sumrin 2013-2016. Heimilt yrði síðan að auka þann fjölda upp í 130 lambær, í tveimur áföngum á næstu 8 árum þ.e. að beit á 130 ám yrði fyrst heimil sumarið 2021. Úrskurðurinn var kærður til yfirítölunefndar í mars í fyrra en hún hefur enn ekki tekið ákvörðun.

Sjá nánar á vef RUV.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar