Búseta í sveit

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Búseta í sveit heitir verkefni sem hefur verið unnið hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins undanfarið ár. Verkefnið er í umsjá Guðnýjar Harðardóttur og var unnið með styrkveitingu frá Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.

Vegna ályktunar frá Búnaðarþingi 2013 sem var í þá veru að efla skyldi ráðgjöf varðandi ábúendaskipti á bújörðum var ráðist í þetta verkefni. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búrekstrar. Auknar kröfur stjórnsýslunnar ásamt stækkandi búum hefur leitt til þess að eftirspurn eftir slíkri ráðgjöf og þjónustu hefur aukist til muna.

Til varð efni sem er nú aðgengilegt hér á vef RML ásamt efni sem eru rafrænir vegvísar sem fást hjá næsta ráðunaut. Þeim er ætlað að vísa leiðina við upphaf búskapar ásamt því að þeim fylgir klukkustundar ráðgjöf/þjónusta frá ráðunaut.  Sjá nánar hér.

Nýliðunarstyrkir 2015

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Í Bændablaðinu sem kemur út í vikunni verður auglýst eftir umsóknum um nýliðunarstyrki í sauðfjárrækt árið 2015.  Umsóknarfrestur er til 1. mars n.k. sem fyrr, en móttaka umsókna og afgreiðsla þeirra verður í höndum Búnaðarstofu sem annast þau stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands inna af hendi í umboði stjórnvalda.

Reglur um styrkina er að finna í reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2015 sem finna má hér (bls. 7-9).  Nánari upplýsingar veitir Guðrún S. Sigurjónsdóttir hjá Búnaðarstofu , í síma 563 0300 eða með tölvupósti á gss (hjá) bondi.is.

Svið að seljast upp.

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Samkvæmt upplýsingum sem Landssamtökum sauðfjárbænda hafa borist er stutt í að lambasvið sem framleidd voru í sláturtíðinni sl. haust seljist upp. Afurðastöðvarnar hafa þegar gengið frá sölu á sínum birgðum að mestu eða öllu leiti.

Eftirspurn hefur verið mjög mikil eftir sviðum og nauðsynlegt var að panta þau með góðum fyrirvara. Þeir sem gengu frá samningum um kaup í tíma eru ekki í vandræðum með að fá svið, en aðrir gætu verið í þeirri stöðu. Afurðastöðvar verka ákveðið magn af sviðum fyrir innanlandsmarkað á hverju hausti, en afgangurinn af hausunum er fluttur út. Hættan er að þegar nær dregur þorranum klárist sviðin.

Þess fyrir utan er það ánægjulegt að þorrablótin virðast vera kominn aftur í tísku sem er að sumu leyti óvænt enda var því spáð að með nýrri kynslóð myndu þau eiga undir höggi að sækja. En þróunin er á allt annan veg og þau virðast aldrei hafa verið vinsælli. Við þessu þarf mögulega að bregðast fyrir næsta ár enda mikilvægt að allir fái sinn kjamma.

Bændur fá ekkert greitt fyrir hausa eða annan innmat, en greiða ekki fyrir flutning á sláturfé á móti. Það er fagnaðarefni ef þessi mikla eftirspurn verður til þess að verðmæti sviða og annarra hliðarafurða eykst og bændur vænta þess að þess sjái stað í afurðaverði þegar fram líða stundir.

Árshátíð sauðfjárbænda 2015

Written by Sigurður Eyþórsson | .

Eins og fram kemur hér á vefnum þá er árshátíð sauðfjárbænda að þessu sinni föstudaginn 27. mars.  Þeir sem eru nú þegar ákveðnir í að fara eru hvattir til að panta sér gistingu sem fyrst.  Vegna vaxandi ferðamannafjölda er gistirými mun fljótara að seljast upp en áður - svo það er ekki eftir neinu að bíða fyrir þá sem þegar hafa afráðið að mæta..

Einnig er hægt að panta miða á skiptiborði Bændasamtakanna í síma 563 0300.  Verðið liggur þó ekki enn fyrir og verður ekki alveg strax, en það ræðst af því hvernig gengur að afla styrkja.  Af marggefnu tilefni er minnt á að pöntun á miða felur ekki í sér pöntun á gistingu eða öfugt.

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar