Nærri helmingur þjóðarinnar horfði á sauðburð í beinni

| .

Þriðja vinsælasta sjónvarpsefni liðinnar viku

 

Maraþonútsending RÚV frá sauðburði á Syðri-Hofdölum í Skagafirði sem hófst á uppstigningadag, sló í gegn meðal þjóðarinnar. Sent var út að hluta á aðalrás Sjónvarpsins og í heilan sólarhring á hliðarrás.

 Mesta áhorf, ef skoðað er mínútu fyrir mínútu, var 45% á hægvarpsútsendinguna Beint frá burði. Þetta þýðir að nánast annar hver Íslendingur horfði eitthvað á útsendinguna. 

 Skilgreint uppsafnað áhorf var hins vegar 38%. Þetta eru þeir sem horfðu á hægvarpið í fimm mínútur eða lengur og sú tala sem venja er að miða við. Það þýðir að ríflega 125 þúsund manns settust við og horfðu á sauðburðarútsendinguna.

Ef rýnt er í tölurnar sést að 27,2% þjóðarinnar horfðu á hægvarpið á hliðarrás RÚV í fimm mínútur eða lengur en 18,6% á aðalrásinni. Ekki er þó hægt að leggja þessar tölur saman og fá út að  45,6% hafi horft, því í sumum tilfellum er þetta sama fólkið sem skipti á milli aðalrásar og hliðarrásar. Talan 38% stendur. Til samanburðar horfðu 44% á evróvissjónþáttinn Alla leið og 38,7% á Úrslitakeppni Olísdeildarinnar, en þetta eru þeir dagskrárliðir sem verma fyrsta og annað sætið á listanum yfir mesta áhorfið í síðustu viku. Sem þýðir að Beint frá burði var þriðji vinsælasti dagskrárliðurinn í íslensku sjónvarpi.

Að auki horfðu margir á netinu. Alls voru 29 þúsund heimsóknir inn á útsendinguna á www.ruv.is og meðalheimsóknin var rétt tæpar fimm mínútur. Þá eru ótaldir þeir sem horfðu á í útlöndum. 

Hluti sauðburðarútsendingar RÚV verður á aðalrásinni

| .

Maraþonútsending RÚV frá sauðburði á Syðri-Hofdölum í Skagafirði verður að hluta til á aðalrás Sjónvarpsins. Útsendingin hefst á hádegi á morgun, uppstigningardag, og stendur í heilan sólarhirng. Upphaflega stóð til að senda einungis út á hliðarrás RÚV(íþróttarásinni) og á vefnum. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að senda fyrstu 90 mínúturnar út á aðalrás Sjónvarpsins og aftur eftir að hefðbundinni dagskrá lýkur annað kvöld og fram að hádegi á föstudaginn. 

Sjónvarpsmaðurinn Gísli Einarsson stendur vaktina ásamt einvala liði tækni- og kvikmyndatökumanna. Útsendingin verður sú fyrsta sinnar tegundar í íslensku sjónvarp og einstakur viðburður í íslenskri sjónvarpssögu.

Við hvetjum alla til að fylgjast með, taka þátt í gegnum Facebook og Tvitter, láta aðra vita og deila sem víðast. Með því smella á myndina hér að neðan er hægt að fara beint inn á frétt RÚV um viðburðin og deila henni á Facebook. 

Um 200 milljóna sala til Hong Kong

| .

Á dögunum gengu SAH Afurðir á Blönduósi frá samningum um sölu á 160 tonnum af lambakjöti og 70 þúsund gærum til fyrirtækis í Hong Kong. Kjötið verður einkum selt á fínni veitingastöðum og hótelum ytra. Reikna má með annarri eins sölu í haust og svo áfram næstu ár.

Í fyrstu sendingunni verða sendir út frosnir heilir skrokkar en svo stefna menn að því að vinna kjötið meira hér heima í framtíðinni, segir Gunnar Tryggvi Halldórsson, framkvæmdastjóri SAH Afurða. Verðið á kjötinu sé sambærilegt við það sem gerist á innanlandsmarkaði og eins sé verið að borga sanngjarnt verð fyrri gærurnar. Gunnar Tryggvi segir söluna skipa miklu máli fyrir fyrirtækið, bændur og aðra innlenda framleiðendur.

Gunnar Tryggvi segir að þetta sé mjög hagstæður samningur um útflutning á kjöti og viðskiptin geti orðið veruleg á næstu árum, enda báðir samningsaðilar á því að salan nú sé aðeins fyrsta skref. Hann óttast hins vegar að verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun geti sett strik í reikninginn. Hvorki sé hægt að flytja út kjöt né gærur án þess að fá uppáskrift frá dýralækni. Fáist ekki undanþágur geti viðskiptin verið í uppnámi áður en þau hefjast. 

Bein útsending úr sauðburði í heilan sólarhring

| .

Sauðburður stendur nú sem hæst og það er ógleymanlegur tími fyrir þá sem eiga þess kost að fylgjast með. Um hádegið á uppstigningardag, 14. maí, hefst bein útsending frá sauðburði á aukasjónvarpsrás RÚV (íþróttarásinni) og á vefnum www.ruv.is. Sent verður út í heilan sólarhring frá fjárhúsunum á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Áhorfendur fá að fylgjast með bændunum Atla og Klöru taka á móti lömbum á þessum mikla annatíma og kynnast hefðbundnum störfum bænda á sauðburði.

Það eru ekki til mikið óræðari tákn um að sumarið sé á næsta leiti en þegar  lömbin koma í heiminn. RUV ætlar að gefa öllum landsmönnum kost á að fylgjast með sauðburði í beinni útsendingu og það verður sjónvarpsmaðurinn Gísli Einarsson sem stendur vaktina frá því klukkan tólf á fimmtudaginn og fram að hádegi á föstudag. Honum til fulltingis verður einvala lið tækni- og kvikmyndatökumanna. Útsendingin verður sú fyrsta sinnar tegundar í íslensku sjónvarp og einstakur viðburður í íslenskri sjónvarpssögu.

 

Við hvetjum alla til að fylgjast með, láta aðra vita og deila sem víðast. 

 

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar