Fræðslufundur um nýtingu sauða- og geitamjólkur

| .

Fullyrða má að ónýtt sóknarfæri liggi í nýtingu sauða- og geitamjólkur hér á landi. Áhugi fyrir mjöltum og vinnslu úr mjólkinni er til staðar, enda möguleikarnir kannski meiri en nokkru sinni áður að bjóða heimaunnar landbúnaðarvörur nú þegar landið okkar er svo vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þá er ekki vanþörf á því að skoða alla möguleika sem kunna að vera fyrir hendi í því að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.
Fyrirhugað er að halda fræðslufund fyrir þá sem hafa hug á því að hefja mjaltir og vinnslu á afurðum úr sauða- og geitamjólk. Markmið fundarins er að kynna fólki hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og að hverju þarf að huga áður en farið er af stað í slíkt verkefni.
Á fundinum mun Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, greina frá reynslu þeirra bænda í Akurnesi af framkvæmd sauðamjalta. Óli Þór Hilmarsson hjá MATÍS mun fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar samkvæmt núgildandi reglugerðum. Þá mun Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækni ráðunautur RML, fjalla um aðstöðu við mjaltir.
Fundurinn er haldinn af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landsamtök sauðfjárbænda og Geitfjárræktarfélag Íslands. Fundurinn verður haldinn á Hvanneyri föstudaginn 23. júní frá kl. 13:00 til 17:00. Þátttaka er öllum opin og ekkert skráningargjald en þátttakendur verða að skrá sig fyrir fram. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu RML (sjá hnapp á heimasíðu) eða í síma 516-5000. Skráningu lýkur mánudaginn 19. júní.
Nánari upplýsingar veitir Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá RML (ee@rml.is / 516-5014).

Skýrsla starfshóps um útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería

| .

skýrsla starfshóps um tillögur um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi hefur verið birt á vef velferðarráðuneytisins. 

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföllum af völdum fjölónæmra baktería fer fjölgandi. Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári og að þeim fjölgi í allt að 10 milljónir á ári árið 2050 verði ekkert að gert.

Í skýrslu starfshópsins er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem stuðla að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og tilgreindar aðgerðir í tíu liðum sem hópurinn leggur til svo koma megi í veg fyrir frekari útbreiðslu þess.

Starfshópurinn var skipaður af heilbrigðisráðherra og í honum áttu sæti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem var formaður hópsins, Sigurbjörg Daðadóttir yfirdýralæknir og Vala Friðriksdóttir deildarstjóri Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.

Lambakjöt hefur lækkað um nærri fimmtung í verði

| .

Íslenskir neytendur borga nú 18,3% lægra raunverð fyrir lambakjöt en þeir gerðu árið 2008. samkvæmt tölum frá Hagstofunni hækkaði verð á mat og drykk á Íslandi um 46,1% en almennt verðlag um 42,9% frá ársbyrjun 2008 og til 1. apríl 2017. Verð á lambakjöti hækkaði hins vegar mun minna á því tímabili, eða um 24,6%.

Þar sem lambakjötið hefur ekki fylgt verðbólgu hefur það í raun lækkað í verði um 18,3% sé miðað við almennt verðlag og um 21,5% sé miðað við aðra matvöru. Á sama tímabili hafa laun hækkað 72,4% eða um 29,5% að raunvirði. Kjötbiti sem áður tók klukkustund að vinna fyrir fæst nú fyrir 43 mínútna vinnu. Þetta þýðir að hægt er að kaupa 39,5% meira íslenskt lambakjöt fyrir tímakaupið nú en fyrir 9 árum.

verð1
verð2
  verð3

Fleiri fréttir

Vinsælustu fréttirnar